Aska gæti truflað flug í marga daga

Farþegar á Vantaa flugvelli í Helsinki í kvöld. Öllum flugferðum …
Farþegar á Vantaa flugvelli í Helsinki í kvöld. Öllum flugferðum eftir klukkan 21 í kvöld að íslenskum tíma hefur verið aflýst. Reuters

Evrópska flugumferðarstjórnarstofnunin Eurocontrol segir, að búast megi við því að gjóskuskýið frá Eyjafjallajökli gæti valdið áframhaldandi röskun á flugumferð í Evrópu í að minnsta kosti tvo sólarhringa. Talið er að allt að 6000 flugferðum hafi verið aflýst í dag vegna öskunnar og er þetta mesta röskun á farþegaflugi, sem orðið hefur frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin árið 2001.  

Eurocontrol spáði því í kvöld, að í það minnsta helmingi af um 600 flugferðum milli Evrópu og Bandaríkjanna yrði aflýst í fyrramálið. Belgía, Bretland, Danmörk, Finnland, Holland, Noregur og Svíþjóð lokuðu lofthelgi sinni fyrir flugumferð vegna hættu á að gjóskan skemmdi flugvélahreyfla. Þá urðu miklar truflanir á flugumferð í Frakklandi, Þýskalandi og Spáni.

Gjóskuskýið náði til norðurhluta Póllands í kvöld og þurftu þarlend stjórnvöld að loka lofthelginni þar. Útför Lechs Kaczynzkis, forseta landsins, á að fara fram á sunnudag og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og fleiri þjóðarleiðtogar, kunna að þurfa að aflýsa fyrirhugaðri ferð til Póllands. 

Norðmenn, Belgar og Finnar sögðu, að flugvellir þar yrðu lokaðir mestallan morgundaginn. Bretar hafa framlengt flugbann til 12 á hádegi á morgun og það hafa Danir gert einnig.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert