Í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði búa menn sig nú undir mögulegt öskufall á morgun. Búist er við því að áframhaldandi vestanátt haldist fram eftir degi en annað kvöld snýst líklega í norðanátt og þá má búast við að öskufallið færist til Eyja og jafnvel yfir Hvolsvöll.
Fram kom á stöðufundi Almannavarna nú kl. 16 að búið er að senda bæði rykgrímur og hlífðargleraugu til Vestmannaeyja. Enn er beðið niðurstaðna rannsókna á öskusýnum sem tekin voru við jökulinn fyrr í dag. Búið er að kanna áhrif gjóskunnar á ökutæki og eru þau ekki önnur en sú gjóska safnast í loftsíur sem geta stíflast. Svo lengi sem síurnar láta ekki undan ættu því bílar að geta gengið óháð öskufallinu. Engu að síður hafa tveir brynvarðir björgunarsveitarbílar verið sendir austur undir Eyjafjöll til að aðstoða umferð ef þörf er á.
Öskufallið hefur að sögn Almannavarna verið hvað verst frá Hjörleifshöfða og austur að Kirkjubæjarklaustri. Sagt er að það hafi komið fólki á svæðinu á óvart hversu þétt öskufallið en sumstaðar sér fólk ekki hendurnar á sér fyrir ösku og opni ökumenn bílglugga fer þeim samstundis að svíða í augun.
Ekki er stefnt að því að opna þjóðveginn fyrir almenna umferð en í nótt verður þó unnið að viðgerðum þar sem vegurinn var rofinn. Það er því ótrygg vinna þar sem flóðbylgjur gætu komið og er áætlað að viðbragðstími verði þá um 45 mínútur þangað sem vinnan fer fram. Vegurinn verður ekki byggður upp að fullu heldur verða áfram lægðir þar sem rofin voru skil, svo vatn mun leita í þann farveg verði aftur flóð.