Búist er við að flugfélög í Evrópu þurfi að breyta flugáætlun sinni í dag og næstu daga vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Á vef BBC segir að aska sé á leið til Bretlands sem geti truflað flugumferð. Fréttin er efst á lista yfir mest lestnu fréttir vefjarins.
Flugumferð var í nótt bönnuð í norðurhluta Noregs og Svíþjóðar vegna
öskunnar frá gosinu í Eyjafjallajökli.
Búist er við truflun á flugi um Skandinavíu í dag.
Ástæðan fyrir því að flugvélar þurfa að breyta flugáætlun er sú að aska getur skemmt hreyfla flugvéla og því reyna flugrekendur að fara ekki um svæði þar sem talið er að aska hafi borist með háloftavindum. Talsvert mikil aska berst frá gosinu og mun meiri aska en frá gosinu á Fimmvörðuhálsi.
Á vef BAA, breska flugeftirlitsins, kemur fram að vegna ösku frá Íslandi verði truflanir á flugi til Aberdeen, Edinburgh og Glasgow. Auk þess sem búist er við truflunum á allt að 90% af því flugi sem fer um flugvellina í Manchester, Liverpool, Stansted, Newcastle og Birmingham. Ákvarðanir um að breyta flugáætlun eru í samræmi við alþjóðlegar reglur.
„Við tökum þessar ákvarðanir til að tryggja öryggi. Við munum halda áfram að vinna með flugþjónustu nágrannaríkja okkar með það að markmiði að lágmarka áhrifin sem þetta hefur á viðskiptavini okkar,“ er haft eftir talsmanni breska flugeftirlitsins.