Björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitinni Víkverja, sem voru á vakt í nótt við Vík, sáu eldingar yfir gosstöðvunum í Eyjafjallajökli. Þeir sáu ekki bjarma af eldinum enda skyggni lítið, en eldingarnar sáust vel.
Gosmökkurinn sést vel frá Vík. Hann er grár á að líta. Björgunarsveitarmenn sem rætt var við í morgun segja að svo virðist sem vindáttin sé eitthvað að breytast. Mökkurinn sé að færast meira í norður, a.m.k. sé farið að sjást í fjöll í austri sem ekki sást í fyrr í morgun.