Sýni sem vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskólans tóku úr öskunni á Mýrdalssandi eru á leið til Reykjavíkur. Þyrla flýgur með sýnin yfir Markarfljót og síðan verður ekið með þau til Reykjavíkur. Niðurstaðan er talin geta gefið vísbendingar um dreifingu öskunnar sem eru mikilvægar upplýsingar fyrir flugmálayfirvöld.
Helgi Arnar Alfreðsson, sérfræðingur frá Jarðvísindastofnun, segir að farið verði með öskusýnin til Víkur. Þar tekur þyrla við þeim og flýgur með þau yfir Markarfljót þar sem ekið verður með þau til Reykjavíkur. Lögð er áherslu á að flýta efnagreiningu eins og hægt er, en niðurstöðurnar skipta máli fyrir búfjáreigendur. Niðurstöðurnar skipta ekki síður máli fyrir flugrekendur því að dreifing öskunnar með háloftavindum ræðst að nokkru leyti af efnainnihaldi öskunnar.
Sýni hafa líka verið tekin úr Markarfljóti. Þar er flúorinnihald mælt svo og amoníaksinnihald og annarra þungmálma.
Hafrannsóknastofnun leggur einnig mikla áherslu á að fá upplýsingar um innihald hlaupvatnsins því að það er talið skipta máli fyrir hrygningu þorsksins.