Allt flug hefur verið bannað um breska flughelgi frá klukkan 11 í dag að íslenskum tíma til klukkan 17 hið minnsta að íslenskum tíma vegna ösku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Jafnframt hefur allt flug verið bannað um norðurhluta Finnalds frá sama tíma en flugbannið þar gildir til miðnættis.
Frönsk flugmálayfirvöld hafa aflýst öllu flugi frá Frakklandi til Bretlands, Írlands og Skandínavíu í dag vegna eldgossins.
Nánast allir flugvellir í Noregi, Danmörku og Svíþjóð eru lokaðir vegna gossins og í Brussel er gert ráð fyrir að flugvellinum verði lokað síðar í dag.
Þegar hefur um þrjú hundruð flugferðum verið aflýst um breska flugvelli í dag en líkur eru á að bannið hafi áhrif á allt flug milli vestur Evrópu og Bandaríkjanna.
Ástæða bannsins er vegna alþjóðlegra reglna sem gilda um flugumferð vegna eldgosa en aska getur haft verulega skaðleg áhrif á flugvélahreyfla og stjórntæki flugvéla.
Bannið í finnskri lofthelgi þýðir að ekkert er flogið um flugvellina í Oulu, Kemi-Tornio, Rovaniemi, Kajaani, Kuusamo, Enontekioe, Ivalo og Kittilae.