„Þetta er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna hér á landi," segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á flugsamgöngur og aðra ferðaþjónustu.
„Svona umfangsmikil truflun á flugi hefur gríðarleg áhrif. Einnig er áhyggjuefni að vita ekki hvað er framundan. Stórir hópar ferðamanna eiga leið til landsins í dag og næstu daga og aðrir sem eru staddir hér og þurfa að komast út," segir Erna.
Erna bendir einnig á að fjölmargir hópar ferðamanna eru á ferð um landið, ekki síst um Suðurlandið, og ferðaskrifstofur vinni nú hörðum höndum í því að breyta ferðaskipulaginu. Hún bindur vonir við að samgöngur komist á að nýju um Suðurlandið.
„Suðurlandið hefur verið helsta aðdráttarafl ferðamanna síðustu vikurnar. Þetta hefur verið stutt milli hláturs og gráts. Fyrst kom alveg fyrimyndargos sem hefur aðallega skemmt fólki en nú syrtir í álinn," segir Erna.
Eitthvað hefur borið á afbókunum á ferðum til landsins, ekki síst til skemmri tíma litið, og skammt er í helstu vertíð ferðaþjónustufyrirtækja yfir sumartímabilið. Þeir vonast því til þess að svona gjóskugos standi ekki lengi yfir, að sögn Ernu, með tilheyrandi truflunum á flugumferð.