Gos hefur verið jafnt og stöðugt í allan dag. Stórt vatnsflóð kom niður Gígjökul kl. 18.30 er að fara niður í byggð. Rauf það varnargarða í Fljótshlíð við Þórólfsfell á leið sinni til sjávar. Svo virðist sem að báðar brýrnar yfir Markarfljót hafi sloppið. Vatnið vex enn við nýju brúna.
Öskufall hefur verið mikið í allan dag og aðallega bundið við svæðið á milli Hjörleifshöfða og Kirkjubæjarklausturs. Ekki sást handaskil þegar verst var. Vegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur var opnaður þegar leið á daginn og öskufall minnkaði þegar leið á kvöldið.
Greining á
ösku hefur leitt í ljós að flúorinnihald er hættulegt búpeningi þegar
öskulag er meira en 1 cm. Vel er fylgst með eldingum og þær hafa verið
bundnar við gosmökkinn hingað til. Erlendir fjölmiðlar hafa fylgst
náið með gangi mála og eru mjög áhugasamir um framvindu gossins.
Í
dag var unnið að því að greina áhrif öskunnar á lýðheilsu og var ráðist
í að þýða tvo bæklinga varðandi áhrif öskufalls á lýðheilsu og helstu
varnir gegn öskufalli. Einnig hófst dreifing á öndunargrímum til
heilsugæslustöðva og viðbragðsaðila. Björgunarsveitir hafa staðsett tvo
brynvarða bíla á gossvæðinu og er annar á Kirkjubæjarklaustri en hinn
er á Vík.
Hvað varðar öskufall þá gerir veðurspáin ráð fyrir að vindur fari í norðanátt og þá má búast við öskufalli undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum þegar líður á morgundaginn. Öskufallið hefur haft gríðarleg áhrif á flugumferð bæði hér heima og erlendis. Farþegar eru tepptir hér á landi og einnig eru margir farþegar sem bíða eftir að komast til landsins. Í dag hefur innanlandsflugið gengið eðlilega og eins er Ameríkuflugið opið en miklar truflanir eru á öllu Evrópuflugi.