Löng leið með fiskinn

Vegurinn er í sundur við Markarfljót.
Vegurinn er í sundur við Markarfljót. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Um 40 tonn af fiski sem í gær voru  boðin upp á fiskmarkaðnum á Höfn í Hornafirði voru vegna eldgossins flutt norðurleiðina til höfuðborgarsvæðisins á þremur stórum flutningabílum. Um sex klukkutíma tekur að keyra suðurleiðina til Reykjavíkur en tvöfalt lengri tíma, um  tólf klukkutíma, ef farið er norður fyrir. Tveir bílstjórar voru í bílunum og skiptust á um að aka til að ná lögboðnum hvíldartíma.

Á heimasíðu fiskmarkaðanna er tilkynning frá Eimskip og Samskip þess efnis að vegna eldgossins í Eyjafjallajökli megi reikna með að fiskur sem verður seldur á Höfn og Austfjörðum verði að fara norðurleiðina með tilheyrandi kostnaði. Mikið af fiski sem boðinn er upp fyrir austan fer til vinnslu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðunesjum og þá ýmist fyrir flug eða í salt.

Einar Jóhann Þórólfsson hjá Fiskmarkaði Suðurnesja á Höfn í Hornafirði segir að aðeins lítilræði verði boðið upp í dag. Bæði sé bræla á miðunum og að auki hrygningarstopp hjá bátunum, að undanskildum einum báti sem tekur þátt í netaralli og fær áóreittur að vera með sex lagnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert