Meintur fjársvikari í gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir meintum fjársvikara. Talið er að fjölmargir einstaklingar hafi afhent manninum verulegar fjárhæðir, í sumum tilvikum tugi milljóna hver, en hann hafi átt að ávaxta það, s.s. með gjaldeyrisviðskiptum. Samkvæmt bankagögnum nema innlegg frá þeim sem maðurinn er talinn hafa blekkt a.m.k. 300 milljónum króna.

Lögreglu bárust kærur og upplýsingar frá fjölda einstaklinga sem allir bera að hafa undanfarin misseri afhent kærða verulegar fjárhæðir, í sumum tilvikum tugi milljóna hver þeirra.  Allir bera með svipuðum hætti um það að maðurinn hafi haft frumkvæði að því að hafa samband og boðist til að ávaxta fé þeirra, gjarnan með einhverskonar gjaldeyrisviðskiptum eða með því að aðstoða manninn við að losa um innistæður sem hann hefur borið að eiga í erlendri mynt á reikningum í bönkum í útlöndum.  Í öllum tilvikum hefur maðurinn boðið mjög ríflegan hagnað fyrir viðkomandi.

Lögreglan hefur aflað bankagagna sem þó eru ekki tæmandi. Samkvæmt bankagögnum frá Landsbanka Íslands nema innlegg frá þeim sem maðurinn er talinn hafa blekkt a.m.k. 300 milljónum kr.  Óútskýrð ráðstöfun mannsins af því fé nemur u.þ.b. 260 milljónum króna.

Maðurinn sjálfur gjaldþrota

Samkvæmt gögnum lögreglu hafa a.m.k. 90  einstaklingar lagt ofangreinda fjárhæð á reikning mannsins við Landsbankann. Auk þess er rökstuddur grunur um að umfang svikastarfsemi mannsins sé meiri því hann hafi haft bankareikning í BYR sparisjóði, sem talið er að hann hafi notað til þess að láta greiða inn á frá fólki sem hann er talinn hafa blekkt.

Lögregla hefur lögreglan rökstuddan grun um að maðurinn stundi skipulagða fjársvikastarfsemi þar sem hann blekki fólk til þess að leggja fram fjármuni með loforði um skjótfengin gróða. Hann hafi sjálfur á síðasta ári verið úrskurðaður gjaldþrota. Gögn benda til þess að hann hafi lengi haft mjög bágan fjárhag en töluverða framfærslu. Maðurinn er ekki sjálfur skráður fyrir eignum, heldur kona hans, og á milli þeirra er kaupmáli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert