„Þetta er erfitt. Ég hef áhyggjur af öllum skepnum, ég tala nú ekki um þeim sem eru bundnar inni,“ segir Þorvaldur Helgason, bóndi á Svanavatni í Austur-Landeyjum.
Þorvaldur og Agnar Már Agnarsson, bóndi í Hallgeirseyjarhjáleigu, voru í fjöldahjálparmiðstöðinni í Hvolsskóla á Hvolsvelli síðdegis í gær þegar boð komu um að þeir mættu fara heim til að huga að búsmala sínum og heimilum.
Báðir fengu þeir boð um að rýma á fimmta tímanum um nóttina. Agnar er ekki sáttur við boðunina. „Heimasíminn hringdi en bara stutt. Okkur datt ekki í hug að það væri rýming því þegar rýmt var út af fyrra gosinu hringdu allir símarnir í kór,“ segir Agnar og segir að sér hafi dottið í hug að eitthvað hafi komið fyrir boðunarkerfið. En íbúarnir passa hver upp á annan og nágranni Agnars bankaði upp á til að athuga hvort þau hefðu fengið boðin.
„Ég er ekki hræddur við þessi gos en ég óttast Kötlu. Það líður kannski tími en hún kemur. Þá erum við að tala um miklu meiri kraft,“ segir Agnar Már.
Sjá nánar um afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli í Morgunblaðinu í dag.