Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lýsti á Alþingi í dag ánægju sinni með hversu málefnaleg umræða hefur verið um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún gerði hins vegar athugasemdir við orð Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, og sagði þau ómakleg og henni ekki til sóma.
Ásta Ragnheiður sagði að Vigdís hefði látið ómakleg orð falla um Alþingi og starfsmenn þess úr ræðustól. „Í siðferðishluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er kallað eftir því að þingmenn temji sér góða rökræðu siði. Háttvirtur þingmaður féll á þessu prófi og mætti hafa í huga að ásýnd þingstarfanna eru undir þingmönum sjálfum komin.“ Jafnframt sagði hún að þingmenn verði að gæta virðingar sinna og þar með Alþingis. Ásýnd þingstarfanna eru enda undir þingmönnum sjálfum komin.
Vigdís Hauksdóttir tók til máls um sömu skýrslu á þriðjudag. Í ræðu sinni sagði hún m.a.: „Eftir að ég tók sæti á Alþingi hef ég komist að raun um að innviðir Alþingis sem stofnunar eru fúnir. Það er með ólíkindum hvað vantar upp á faglega lagasetningu og nefndasvið Alþingis skilar ekki því starfi sem ætlast er til sem ráðgefandi aðili við lagasetningu.“
Þar sem Ásta Ragnheiður nefndi ekki hvaða þættir það voru í ræðu Vigdísar sem voru svo ómaklegir er aðeins hægt að geta sér til um það. Vigdís fór um víðan völl þegar hún ræddi um Alþingi og sagði m.a.: „Ég geri því ríka kröfu til þess að Alþingi sé ráðgefandi fyrir þingmenn og aðstoði þá á faglegan hátt í störfum sínum, því að í raun er það hlutverk stofnunarinnar. Starfsmenn Alþingis eiga að starfa fyrir alþingismenn. Lögfræðisvið Alþingis þarf að stórefla. Yfirstjórn þingsins verður að taka þessi orð til sín.“
Einnig spurði hún hvers vegna löggjafinn sé ekki varinn af starfi lagaprófessora sem hafa fasta stöðu við þingið og hvers vegna við þingið sé ekki starfandi lagaráð eða lagaskrifstofa sem hefur það hlutverk að lesa yfir lagafrumvörp sem lögð eru fram. „Hér þarf að taka til. Hér er verk að vinna. Í raun er búið að flytja lagasetningarvaldið út til ráðuneytanna í skjóli langrar hefðar meirihlutastjórna. Þetta er algjörlega óásættanlegt. [...] Þessi staða Alþingis er algjörlega óásættanleg og í raun óþolandi. Alþingi má ekki stunda kranalagasetningu og samþykkja frumvörp nánast órædd frá aðilum úti í bæ. Ekkert hefur breyst þrátt fyrir allsherjarhrun heillar þjóðar.“
Hún sagðist einnig heita því að „þegar“ Framsóknarflokkurinn kemst í ríkisstjórn á ný muni hún beita sér fyrir því „að innviðir Alþingis verði styrktir og Alþingi verði það löggjafarvald sem því er ætlað í stjórnarskrá. Fyrsta skrefið í þá átt er frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis sem ég hef nú þegar lagt fram.“