Skörðin eru talin hafa bjargað brúnni

Myndin var tekin úr flugvél Landhelgisgæslunnar og sýnir hvar skörðin …
Myndin var tekin úr flugvél Landhelgisgæslunnar og sýnir hvar skörðin voru grafin í veginn.

Með því að grafa skörð í hringveginn austan við brúna yfir Markarfljót tókst að beina stórum hluta af jökulhlaupinu frá henni og virðast allar líkur til að þessi aðgerð hafi bjargað brúnni.

Með skörðunum fann jökulvatnið sér annan farveg og ekki veitti af, því á tímabili mátti afar litlu muna að vatnið næði upp í brúargólfið. Þá skipti lykilmáli að útbelgd áin rauf sjálf skarð í varnargarð austan við Markarfljót en með því var miklu álagi létt af brúnni.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem fylgdist grannt með jökulhlaupinu hrósaði gröfumanninum sérstaklega. Ríkið munaði ekki mikið um að endurgera vegina sem grafnir voru í sundur, og hefðu líklega hvort sem er farið í sundur. „En okkur munar um eina Markarfljótsbrú,“ sagði hann. Svanur G. Bjarnason, umdæmissjóri Vegagerðarinnar á Selfossi, sagði ómögulegt að meta hvað hefði gerst ef jökulhlaupið hefði allt runnið undir og væntanlega einnig yfir brúnna. Hætta hefði verið á að áin myndi grafa frá brúarendunum en slíkt getur leitt til þess að brúin skekkist.

Grafan sem er frá Suðurverki var send á vettvang að beiðni Vegagerðarinnar. Hún var komin á staðinn um klukkan 11:30, um hálftíma áður en hlaupið náði niður að Markarfljótsbrú.

Rann rétta leið

Guðjón Sveinsson, gröfumaður, byrjaði á að grafa skarð í veginn austan við brúna við varnargarð sem liggur upp með ánni. Skarðið var ekki djúpt en í samtali við Morgunblaðið sagði Guðjón að þess þyrfti ekki. Um leið og búið væri að ryðja slitlaginu ofan af veginum og þjöppuðu efni þar fyrir neðan sæi áin sjálf um að ryðja sér leið. Stór vörubíll, svonefnd búkolla, flutti efnið á brott jafnharðan.

Beltagröfur fara ekki hratt yfir en Guðjón hafði ekki miklar áhyggjur af því að flóðið myndi hremma hann. Þó einhverjar. „Fyrst kom bylgja og mér þótti hún ekki svo svakaleg,“ sagði Guðjón en þegar hún kom var hann önnum kafinn við að grafa annað skarð í veginn, austan við litlu brúna yfir Seljalandsá. Þegar hann leit upp sá hann „töluvert stærri flóðbylgju ofan á hinni“. Hann vildi ekki viðurkenna að farið hefði um hann við þessa sjón en þó hefði verið „kominn tími til að gera einhverjar aðrar ráðstafanir“.

Guðjón færði því gröfuna enn austar og tók að grafa í sundur veginn vestan við vegamótin að Merkurvegi, sem m.a. liggur inn að Seljalandsfossi. Einnig hlóð hann upp litlum varnargarði þannig að vatnið gat ekki brotið sér leið austar. Markarfljótið komst því ekki lengra og rann „rétta leið, þ.e. meðfram um 100 ára gömlum varnargarði og til sjávar en ekki yfir gróið land“.

Bændurnir á Seljalandi og á Fiti, sem eru meðal þeirra bæja sem eru næstir austan við Markarfljót, voru sammála því að Guðjóni og gröfunni væri að þakka fyrir að vatnið flæmdist ekki yfir lönd þeirra. „Það er það sem bjargar okkur,“ sagði Kristján Ólafsson, Seljalandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert