Bændur og björgunarsveitarmenn smöluðu búfé í Meðallandi í gærkvöldi, en þar gerði mikið öskufall, svo mikið að ekki sá á milli stika á veginum. Mikið öskufall var í Álftaveri í morgun og „skuggsýnt“ að sögn Sigurlaugar Sigurðardóttur bónda á Herjólfsstöðum.
Sigurlaug segir að á venjulegum degi ætti að vera orðið bjart úti, en það sé enn mjög dimmt og sjáist ekki á milli húsa.
Ekkert öskufall var við Herjólfsstaði í gærkvöldi, en annað er uppi á tengingum í dag.
Mikið öskufall var við bæinn Syðra-Steinsmýri í gærkvöldi, en Ingunn Magnúsdóttir, bóndi í Syðra-Steinsmýri, segir að ekki sé öskufall þessa stundina.
„Það kemur ekkert niður núna, en það var talsver mikið öskufall í gærkvöldi. Það er grá hula yfir öllu. Bílarnir eru gráir,“ sagði Ingunn.
Öskufallið byrjaði um kl. 8 í gærkvöldi og stóð fram eftir nóttu. Allsterkur vindur er af vestri og ber öskuna til austurs.
Allar skepnur eru á húsi á Syðra-Steinsmýri, en búfé var úti á sumum bæjum. Björgunarsveitarmenn og bændur gripu til þess ráðs í gærkvöldi að smala kindum og hrossum og koma þeim í hús.
„Við erum róleg yfir þessu í augnablikinu, en það var talsverð viðbrigði í gær þegar tók að snjóa ösku. Við höfum aldrei upplifað svona áður. Maður sá ekki milli vegstika.“
Öskufall getur valdið fólki óþægindum og skepnur geta borið skaða af því. Það getur einnig leitt til þess að bílar drepi á sér.
Ekki er hægt að greina að neitt sé að draga úr gosinu. Strókurinn dökknar öðru hverju og því fylgir öskufall. Vindar blása öskunni til austurs. Strókurinn nær 6-8 km hæð.
Fólk á 20 bæjum næst gosinu fengu ekki að vera heima í nótt, en bændur mega sinna gegningu nú í morgunsárið.