„Þetta er ekkert rosalegt hlaup,“ segir Þórir Árnason, verkstjóri hjá Suðurverki sem fylgst hefur með hlaupinu við Markarfljótsbrú. Flóðið kom niður að brúnni um kl. 20:45.
Þórir hefur staðið upp á höfðanum við Seljaland í kvöld og fylgst með flóðinu. Hann segir að vatn hafi runnið í gegn um eitt skarð af þremur í veginum. Sú vinna sem vegagerðarmenn lögðu á sig í dag við að koma á vegasambandi yfir Markarfljót er því ekki öll unnin fyrir gýg.
Mikil drulla er í vatninu og íshröngl og svartir jakar hafa borist niður eftir ánni.
Þórir hefur ekki upplýsingar um hvað gerðist inn í Fljótsdal í kvöld. Hann ætlar í kvöld að kanna ástandið á gömlu brúnni yfir Markarfljót. „Ég vona að sú flóttaleið sé opin,“ sagði Þórir.