Gíggötin hafa stækkað

Magnús Tumi Guðmundsson rýnir í kort áður en hann fer …
Magnús Tumi Guðmundsson rýnir í kort áður en hann fer í flug. mbl.is Árni Sæberg

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur var í för með Landhelgisgæslunni í kvöld þegar stórt hlaup kom úr Gígjökli. Hann segir hlaup sem þessi ekki vera óvenjuleg. Búast megi við fleiri hlaupum. Hann segir götin þrjú í gígnum í Eyjafjallajökli hafa stækkað verulega frá því í gær.

„Þetta var mikið hlaup, miklu stærra en hlaupið sem kom í gær. Það var þykkt og eðjuríkt, mikill ís og krapi í því og það flutti með sér töluverða ísjaka úr jöklinum. Það ruddist hratt fram. Fór yfir efsta garðinn hjá Þórólfsfelli og síðan fram farveginn,“ segir Magnús Tumi í samtali við mbl.is í kvöld.

„Þetta hlaup kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Við höfum áttað okkur á því, og það er þekkt í gosum í bröttum eldfjöllum, þar sem eru jöklar, að þar koma endurtekin snögg flóð eða flóðgusur. Við höfum átt von á því,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir ljóst að vatn safnist fyrir á gosstöðvunum í einhverja klukkutíma, t.d. hálfan sólarhring, svo bresti ísstíflan sem ryðjist niður jökulinn af miklum krafti og fari fram með miklu afli fram á aurana.

„Hins vegar er ekki mjög mikið vatn í heildina sem kemur fram í hlaupi eins og þessu sem þarna var. Það dofnar. Markarfljótsaurarnir eru stórir og taka mikið vatn og flóðtoppurinn dofnar. Að minnsta kosti þetta hlaup var þannig að megingarðakerfin og brýrnar stóðust það. Og maður vonar að það verði þá þannig ef fleiri hlaup koma. Það má búast við að þau verði fleiri,“ segir Magnús Tumi.

Ekki sjái að það sé að draga úr gosinu. Ekki sé vitað hvenær því muni ljúka. Verið sé að Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sé nú að greina gjóskusýni sem bárust í dag. „Þegar þær niðurstöður berast þá verður heldur skýrarar að bera þetta gos saman við ýmis önnur,“ segir Magnús Tumi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert