Þéttir glugga vegna öskufalls

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri.
Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. Ómar Óskarsson

„Við erum núna að þétta alla glugga, setja inn vélar og búa okkur undir öskufall á morgun og laugardag,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. Spáð er hvassri norðanátt síðdegis á morgun sem þýðir að mikið öskufall verður á Þorvaldseyri.

Þorvaldseyri er beint undir Eyjafjallajökli og því er norðanátt versta vindátt sem hugsast getur fyrir bændur á bænum.

Ólafur vonast eftir að fá ýtu til að gera endurbætur á varnargörðum við Svaðbælisá. Það er þó háð því að takist að koma á vegsambandi yfir Markarfljót. Ólafur segir að lítið megi út af bregða til að vatn flæði framhjá varnargörðunum og yfir túnin. Mikill aur hefur borist niður árfarveginn þannig að farvegurinn er hærri en áður. 

Ólafur segir að ráðast þurfi í miklar aðgerðir til að varna því að vatn spilli ekki túnum og mannvirkjum á Þorvaldseyri. „Þetta kallar á meiri aðgerðir en einn meðalbóndi ræður við,“ segir Ólafur. Hann segir að oft komi mikið vatn í Svaðbælisá þegar rigni mikið. Hann segir hætt við því að farvegurinn taki ekki slík rigningarflóð.

Símalína sem tengist sjálfvirkum GPS-mæli jarðvísindamanna við Þorvaldseyri fór í sundur í flóðinu, en í dag var unnið við að gera við hana.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert