Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fór fram á það við forseta Alþingis, að dagskrá verði breytt og eldgosið í Eyjafjallajökli rætt. Pétur H. Blöndal, þingmaður sama flokks, tók undir og sagði rétt að ræða hugsanlegar afleiðingar af öskufalli á bæi og bú. Dagskránni var ekki hnikað.
Árni sagði mikla alvöru fylgja gosinu og auðsætt, að setja verði strax á stofn mannvirkjastjórn, skipaða í það minnsta Vegamálastjóra, Landgræðslustjóra og sveitastjóra Rangárþings eystra. Þegar hafi orðið tjón og í hættu séu heilar sveitir og ein helsta matarkista landsins.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði alla hafa áhyggjur af því sem er að gerast. Sprengigos með öskufalli er þar meginorsök áhyggja en við því sé afar erfitt að bregðast. Hann sagði vel hafa tekist í gær og almennt hafi undirbúningur verið góður.