Útlit er fyrir að litlar truflanir verði á flugi á morgun og sunnudag vegna eldgossins í Eyjafjallajökli miðað við háloftaspána fyrir helgina, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Gosmökkurinn hefur minnkað og því dregið úr ösku í háloftunum. Því er væntanlega hægt að fljúga yfir öskusvæðið.
Væntanlega verður lægð komin austur fyrir landið um hádegið og þá snýst í norðlæga átt. Í kvöld má gera ráð fyrir að norðlæg átt verði komin hjá Eyjafjallajökli sem þýðir að askan fer að berast meira til til suðurs. Hún berst nú til austurs.Í fyrramálið verði hún komin til suðurs og þá verði hægt að fljúga til Egilsstaða og jafnvel Hafnar í Hornafirði.
Ekki sé hægt að ímynda sér annað en hægt verði að opna fyrir flug um alla Evrópu á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá spádeild Veðurstofunnar fer askan ekki jafn hátt og hún gerði á miðvikudag og því verði hægt að fljúga fyrir ofan öskusvæðið.
Aðfararnótt sunnudag snýst vindurinn í norðvestan átt og því má gera ráð fyrir öskufalli yfir Meðallandi og í Mýrdalnum. Þetta getur þýtt að flug til og frá Evrópu geti stöðvast á ný ef gosmökkurinn eykst á ný. Hann var mestur á fyrsta degi eldgossins á hábungunni sem hófst á miðvikudag og fór þá alla leið upp í heiðhvolfið og sú aska veldur því að flug hefur legið niðri í stórum hluta Evrópu í gær og í dag. Svo virðist sem gosmökkurinn hafi fallið niður í gær og það skýri það öskufall sem var hér á landi í gær.
Spá um öskufall á Íslandi næstu daga:
Föstudagur: Vestlæg átt, um 10-15 m/s og snjókoma yfir gosstöðvum. Skyggni lítið. Snýst í norðan 10-15 um kvöldið. Aska mun því líklega áfram dreifast einkum yfir Mýrdalssand, Álftaver, Meðalland, Skaftártungur og jafnvel Skeiðarársand fram á kvöld. Síðar um kvöldið er líklegt að aska fari að falla í Mýrdal og Vestmannaeyjum en að verulega dragi úr öskufalli yfir SA-landi.
Laugardagur: Norðvestan 8-13 m/s og léttskýjað. Skyggni ágætt. Aska mun væntanlega dreifast yfir Mýrdalinn, undirlendið við Eyjafjöll og gæti teygt sig til Vestmannaeyja.
Sunnudagur: Útlit fyrir suðvestanátt, 8-13 m/s og él. Skyggni gott með köflum. Aska mun líklega dreifast einkum yfir Skaftártungur og Álftaver.