Vart hefur orðið við ösku á Norðurlandi. Guðríður B. Helgadóttir, sem býr í Austurhlíð framarlega í Blöndudal setti út disk í fyrradag og segir greinilegt að aska hafi fallið í hann.
„Ég setti út undirskál á þriðjudag og fékk nokkur korn í hana. Ég setti svo út súpudisk í gær. Þá rigndi dálítið. Í morgun sá ég að í honum var greinilega grugg sem bendir til þess að aska hafi fallið,“ sagði Guðríður.
Guðríður sagði að þetta hefði komið sér á óvart því að vindur hefur borið öskuna í austur en ekki í norður.
Guðríður hefur áhuga á eldgosum og hefur alltaf sett út disk þegar gýs á Íslandi.