„Við horfðum á þetta koma,“ segir Bryndís Harðardóttir, hjá Svæðisstjórn almannavarna í Vík í Mýrdal, en gjóskufall varð á svæðinu um klukkan átta í kvöld. Bryndís segir það minna en það sem hafi fallið í gær. Það hafi hins vegar komið hratt yfir, en vindáttin varð norðvestlæg í kvöld.
Öskufallið nær frá Múlakvísl í austri og að Skógum.
Hún segir að heldur hafi dregið úr gjóskufallinu. Þetta komi í gusum, en dragi úr á milli. „Þetta er ekkert í líkingu við öskufallið í gærmorgun. Þetta er alveg gjörólíkt því. Þetta er mikið minna og ekki svona dimmt,“ segir hún í samtali við mbl.is.
„Ég er með disk úti og maður sér alveg að hann er orðinn grár. Þetta er
mjög fíngert,“ segir hún um öskuna, sem minni um margt á sement.
Hún segist ekki sjá fjöllin í kringum þorpið vegna öskufallsins. „Við förum ekki að gegna skepnum þannig að við kveikjum bara á kertum og höfum það huggulegt,“ segir Bryndís. Menn bíði einfaldlega þangað til þetta gangi yfir.
„Við vorum búin að undirbúa þetta. Allar fjórar björgunarsveitirnar í Vestur-Skaftafellssýslu fóru á heilsugæslustöðvarnar og keyrðu grímur og gleraugu heim til bænda,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is.