Gylfi: Engar nýjar skuldbindingar

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að ekki komi fram neinar nýjar skuldbindingar af Íslands hálfu umfram það sem þegar hefur komið fram í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til breskra og hollenskra stjórnvalda vegna Icesave. Endurskoðun á annarri úthlutun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á láni Íslands er tekin fyrir á fundi stjórnar sjóðsins sem nú stendur yfir.

„Viljayfirlýsing stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gefin verður út í tengslum við endurskoðun efnahagsáætlunarinnar felur ekki í sér neina nýjar skuldbindingar af Íslands hálfu umfram það sem þegar hefur komið fram. Við lýsum yfir vilja okkar að leysa þessi mál farsællega í tvíhliða samningum við Hollendinga og Breta. Eins og kunnugt er hafa farið fram viðræður við Breta og Hollendinga um að þeir endurheimti höfuðstól þess fjár sem þeir hafa lagt af mörkum ásamt eðlilegum fjármagnskostnaði ef ásættanlegir samningar nást um öll ágreiningsatriði, og hefur stjórn og stjórnarandstaða verið í náinni samvinnu um helstu samningsmarkmiðin í þessum viðræðum," segir Gylfi.

Eins og áður segir verður endurskoðunin tekin fyrir á fundi stjórnar AGS sem hefst seinni partinn í dag og búast má við að niðurstaða liggi fyrir um kl. 20:00.

Viljayfirlýsingin sem fjallar um þann árangur sem þegar hefur náðst og þau markmið sem framundan eru í efnahagsáætlun stjórnvalda verður birt á vef ráðuneytisins að lokinni afgreiðslu stjórnar AGS, samkvæmt upplýsingum frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Bloomberg fréttastofan hafði í dag eftir ónafngreindum heimildarmanni að  í viljayfirlýsingunni  sé því heitið að endurgreiða lánin til Hollendinga og Breta með vöxtum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka