Fyrir átján mánuðum voru birtar endalausar fréttir af hruni íslenskra fjármálafyrirtækja í alþjóðlegum fjölmiðlum en nú eru allir fjölmiðlar uppteknir af fréttum af eldgosinu í Eyjafjallajökli og hvaða áhrif það hefur haft á heiminn. Meðal annars fjallar AFP fréttastofan í kvöld um það hvernig Íslendingar halda flugfarþegum í heljargreipum, meðal annars þjóðhöfðingjum og öðrum ráðamönnum.
Á vef New York Times er forsíðumynd Morgunblaðsins í dag, mynd Ómars Óskarssonar af öskufalli á Suðurlandsvegi á Mýrdalssandi aðalmynd dagsins en auk þess eru birtar 11 myndir sem tengjast gosinu á Íslandi og ítarleg umfjöllun er um eldgosið á vísindasíðum vef NYT.
Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, var á heimleið eftir heimsókn til Bandaríkjanna en situr föst í Lissabon í Portúgal eftir að flugvél hennar var gert að fljúga þangað vegna öskunnar frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Auk hennar er fjöldi þýskra embættismanna um borð í vélinni og fjölmiðlafólk. Mun hún gista í Lissabon í nótt ásamt fylgdarliði og hafði starfsfólk þýska sendiráðsins þar í borg í nægu að snúast við að undirbúa móttöku hennar.
Varnarmálaráðherra Þýskalands, Karl-Theodor zu Guttenberg, situr fastur í Uzbekistan eftir heimsókn til Afganistan en með honum í för eru fimm slasaðir hermenn sem særðust í árás talibana í gær. Fjórir félagar þeirra létust í árásinni.
Jafnframt þurfti að fresta flutningi særðra bandarískra hermanna til Þýskalands þar sem eldgosið á Íslandi kom í veg fyrir sjúkraflug frá Afganistan til Þýskalands.
Juan Carlos missti af boðinu en Tarja Halonen fór landleiðina
Í Danmörku var sjötugsafmæli Margrétar Þórhildar drottningu fagnað en einhverjir þjóðhöfðingjar misstu af boðinu vegna raskana á flugsamgöngum. Nefnir AFP fréttastofan þar á meðal Albert II konung Belgíu, Juan Carlos Spánarkonung og eiginkonu hans Sofiu. Þrátt fyrir að AFP fréttastofan greini ekki frá því þá er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, einnig meðal þeirra þjóðhöfðingja sem misstu af afmælinu vegna eldgossins. AFP greinir hins vegar frá því að Tarja Halonen forseti Finnlands hafi hins vegar komist í afmælisveisluna en hún fór „landleiðina".
En þrátt fyrir erfiðleika í flugsamgöngum þá mun Merkel mæta við útför forseta Póllands á sunnudag og verður tímasetningu útfararinnar ekki breytt þrátt fyrir öskuna frá eldgosinu.Hinsvegar er flugvöllurinn í Kraká í Póllandi lokaður.
Forsætisráðherra Eistlands, Andrus Ansip, hefur ákveðið að aka 1.300 km leið, um 18 tíma akstur, til þess að mæta í útförina ef ekki verður hægt að fljúga. Eins ætlar forseti Evrópuþingsins, Pólverjinn Jerzy Buzek, að keyra frá Brussel til Póllands.
Forseti Tékklands, Vaclav Klaus, og forseti Slóvakíu, Ivan Gasparovic, ætla einnig að keyra til Kraká í útförina en ferðalag þeirra er mun styttra.
Á sama tíma er hinn almenni borgari í slagsmálum um sæti í hraðlestum um Evrópu og leigubifreiðar landa á milli. Hefur það jafnvel gengið svo langt að starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafa fengið heimild til þess að leita leiða til þess að komast á áfangastaði sína svo lengi sem verðið sem greitt er fyrir ferðalagið sé innan skynsamlegra marka.
Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jose Manuel Barroso, hefur ekki enn hætt við fyrirhugaða fundi sína og mun fara akandi til Strassborgar á morgun og til Kraká í jarðarförina á sunnudag.
Tugir erlendra þjóðarleiðtoga, þar á meðal forseti Bandaríkjanna, Barack Obama og Dmitry Medvedev, starfsbróðir hans í Rússlandi vonast enn til þess að komast fljúgandi til jarðarfarinnar.
Í dag áttu fjármálaráðherrar allra ríkja ESB að sitja fund í Madríd á Spáni en því miður þurftu ýmsir þeirra að afboða komu sína. Þar á meðal fjármálaráðherra Belgíu, Bretlands, Danmerkur, Írlands, Möltu, Póllands og Svíþjóðar.
Pistill á vef NPR um eldgosið og áhrif þess
Boston Globe fjallar um maraþonhlaupara sem komast ekki á áfangastað vegna gossins