Landsvirkjun er þjóðarinnar

Ársfundur Landsvirkjunar fer fram á Grand Hótel.
Ársfundur Landsvirkjunar fer fram á Grand Hótel. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið Landsvirkjun er í mjög dreifðri eignaraðild, í eigu allra landsmanna og þannig á það að vera um alla framtíð, að mati fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem hélt erindi á ársfundi Landsvirkjunar í dag.

Sagði hann mikilvægt að Landsvirkjun sé í eigu þjóðarinnar sem geti haft áhrif á rekstur fyrirtækisins og notið arðs af því.

Sagði Steingrímur að ríkið hafi á síðustu misserum reynst fyrirtækinu góður eigandi. Fallið hafi verið frá kröfu um arðgreiðslu og létt undir með fyrirtækinu varðandi lausafjárstöðu. Hann sagðist hins vegar engu geta lofað um framhald á slíkum stuðningi. Ríkið þurfi nauðsynlega á því að halda að fá arð frá fyrirtækjum sínum í ljósi aðstæðna. Samkeppnissjónarmið skipta í því máli einnig máli.

Þá sagðist fjármálaráðherra fagna breyttum áherslum í stefnu Landsvirkjunar, annars vegar því að svipta hulunni af innihaldi raforkusölusamninga og hins vegar því að reyna eigi að ná meiri sátt um nýtingu raforku. Þá sagði hann mikilvægt að fyrirtæki í stöðu Landsvirkjunar séu ekki að hafa óeðlilega mikil áhrif á ákvarðanatöku um nýtingu náttúruauðlinda, heldur eigi slík stefnumótun að eiga sér stað hjá stjórnvöldum.

Að lokum sagði Steingrímur að arður af náttúruauðlindum, raforku þar á meðal, eigi að sem stærstum hluta að renna til samfélagsins og þjóðarinnar.

Ársfundur Landsvirkjunar fer fram í dag.
Ársfundur Landsvirkjunar fer fram í dag. Landsvirkjun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert