LHS innan fjárlaga

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Uppgjör Landspítalans fyrir fyrsta ársfjórðung 2010 liggur nú fyrir. Í bréfi Björns Zoëga, forstjóra LSH, til starfsmanna spítalans kemur fram að mikill árangur hafi náðst í hagræðingaraðgerðum. Þakkar Björn það samstilltu átaki allra starfsmanna, að spítalinn sé nú rekinn innan ramma fjárlaga. Meðal annars hafi tekist að fækka sólarhringsrúmum og færa starfsemi meira yfir á dagvinnutíma, sem hafi töluverðan sparnað í för með sér.

Björn ítrekar nauðsyn þess að viðhalda þessum góða árangri. „Við þurfum líka snerpu til að bregðast fljótt við ef eitthvað breytist. Áfram er það forgangsatriði að tryggja öryggi sjúklinga á erfiðum tímum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri LSH.

Meðallegutími hefur styst um næstum 2 daga (22%), legum hefur fækkað um 6%, rannsóknum hefur fækkað um rúm 15% og skurðaðgerðum um rúm 3% en fæðingum fjölgað (4,7%).

„Dagdeildarkomum hefur fjölgað um 11% sem er eðlileg afleiðing þeirrar ákvörðunar okkar að fækka sólarhringsrúmum og færa starfsemina meira yfir á dagvinnutíma. Tæplega tvö prósent færri sjúklingar (kennitölur) leita til spítalans en árið 2009. Stöðugildi eru 5% færri. Þetta þýðir í raun að spítalinn hefur minnkað og þjónustan færst að hluta til yfir á annað rekstrarform.

Það er áfram mikið að gera á spítalanum sem ekki er nýtt fyrir starfsmenn LSH. Sérstaklega hefur verið annasamt undanfarna 6 daga vegna þess að meira en 30 fleiri bráðveikir sjúklingar hafa leitað til okkar daglega en venjulega er á þessum árstíma. Ástæða þessa er óljós en hefur valdið gífurlegu álagi á bráðamóttökuna okkar.

Við þurfum að viðhalda þessum góða árangri og sýna þolinmæði áfram en við þurfum líka snerpu til að bregðast fljótt við ef eitthvað breytist. Áfram er það forgangsatriði að tryggja öryggi sjúklinga á erfiðum tímum," skrifar Björn í pistli á vef LSH.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert