Nýtt flóð á leiðinni

Reglulega koma ný hlaup í Markarfljót.
Reglulega koma ný hlaup í Markarfljót. Ómar Óskarsson

Rétt í þessu var að mælast 50 cm. hækkun vatnsyfirborðs við gömlu Markarfljótsbrúna. 

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, upplýsti í eftirlitsflugi á fimmta tímanum að bólstrar frá gosstöðvunum næðu upp í 30 þúsund fet og að vindur á svæðinu væri kröftugur, í 19 þúsund feta hæð mældist hann um 85 – 90 hnútar, sem jafngildir 167 km/klst. 

Samkvæmt upplýsingum Samhæfingarstöðvar hefur verið þykkt ský yfir Klaustri í dag en lítið öskufall. Öskufallið virðist fara hátt og leggur langt yfir. Ekki er vitað um öskufall á öðrum stöðum, þ.e.a.s. við byggðarkjarna, en vindur snýst í norðanátt í kvöld og má þá búast við öskufalli sunnan gosstöðvarinnar.

Lokað við Hvolsvöll

Kjartan Þorkelsson sýslumaður segir að ákveðið hafi verið að loka þjóðvegi 1 við Hvolsvöll. Lokunin gildi fyrir morgundaginn, en þá er búist við miklu öskufalli undir Eyjafjöllum. Kjartan segir að gott útsýni sé til gosstöðvanna frá Hvolsvelli, en ferðamenn sem vilji skoða gosið fái ekki leyfi til að fara lengra.

Björgunarsveitir hafa sinnt lokunum á fimm stöðum í dag auk mönnunar í stjórnstöð aðgerða og vettvangsstjórnar á Hvolsvelli. Þær lokanir sem sveitir hafa séð um eru við Fljótsdal, gömlu Markarfljótsbrú við þjóðveg 1, við Vík og við Kirkjubæjarklaustur.  Vegurinn milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var opnaður aftur uppúr klukkan fjögur í dag.

Áætlað er að viðgerð á þjóðveginum við Markarfljót ljúki í kvöld eða í fyrramálið.

Leiðbeiningar vegna heilsufarslegra afleiðinga eldgossins hafa verið settar á vef heilbrigðisráðuneytisins og allra heilsugæslustöðva, auk þess sem sóttvarnalæknar allra sóttvarnaumdæma hafa dreift þeim til sinna heilbrigðisstarfsmanna. 

Fundir voru haldnir með sendiherrum og ráðuneytisstjórum í Samhæfingarstöðinni í dag og þeim gerð grein fyrir stöðu mála.

Þjóðvegur 1 er lokaður við Hvolsvöll að vestan og við Skóga að austan, einnig er lokað inn í Fljótshlíð.

Búið er að opna upplýsingamiðstöð á Hvolsvelli, í húsnæði vettvangsstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert