Starfsmenn Landhelgisgæslunnar náðu síðdegis í gær ratsjármyndum af gígunum í Eyjafjallajökli. Megingosopin eru þrjú og er hvert þeirra 200-500 metrar í þvermál.
„Kl. 17:11 er þessi magnaða mynd tekin af djöflinum sjálfum. Var hann eitthvað að blása og mása á Eyjafjallajökli, skilaboðin bara ekki nágu skýr til að við föttuðum hann. Hann er kannski eitthvað fúll yfir ICESAVE og hrunskýrslunni..." segir í flugskýrslu TF-Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar.
Fram kemur í skýrslunni að við lok flugsins fékk áhöfnin upplýsingar um hlaup frá Gígjökli. Var þá flogið inn í Þórsmörk til að athuga málið og kom þá í ljós að gríðarlegt vatns/krapaflóð var að byltast út á Markarfljótsaura.
„Mikill hraði og hæð var á hlaupinu. Fylgdum hlaupinu eftir meðan flugþol leyfði. Þegar við þurftum frá að hverfa hafði heldur dregið úr hraða og umfangi hlaupsins enda var það mjög krapakennt og þykkt og missti sem betur fer mesta kraftinn áður en það náði að mannvirkjum neðar við fljótið," segir í skýrslunni.
Áður hafði áhöfn Sifjar kannað stöðuna undir Eyjafjöllum. Tilkynnt hafði verið, að Skógarfoss væri orðinn litaður og vöknuðu áhyggjur um að einhver angi frá gosinu rynni þarmeð til austurs. Við athugun kom þó í ljós að svo virðist ekki vera. Segir í flugskýrslunni, að margar ár séu litaðar á svæðinu enda búið að vera talsvert hlýtt og miklar rigningar.