Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt aðra endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fagnar þessu. „Við erum auðvitað mjög ánægð að þetta gekk vel og snurðulaust. Það var ekki óskað eftir atkvæðagreiðslu,“ segir hann.
Hann segir yfirlýsing Norðurlandsfulltrúans hafi verið mjög góð. Fram hafi komið lán frá Norðurlöndunum séu til reiðu.
„Þetta er endurskoðun með fullri fjármögnun, sem er besta mögulega niðurstaðan. Ég geri ráð fyrir því að það verði betur staðfest eftir helgina. En við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að þetta hafi verið alveg eins og við gátu óskað okkur,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is.
Nú opnast aðgangur að rúmum 100 milljörðum kr., sem komi frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi.
„Svo áttum við svolítið geymt frá fyrri endurskoðun. Þetta er í sjálfu sér há fjárhæð sem við eigum núna rétt á að taka í gjaldeyrisforðann. Það verður svo bara metið í framhaldinu hvernig við förum í það,“ segir hann.
„Það að eiga núna kost á að styrkja gjaldeyrisvaraforðann þetta myndarlega kemur okkur í raun og veru alveg fyrir vind, hvað varðar framhaldið. Ekki bara á næstu misserum, heldur sjáum við fram úr árunum 2011 og 2012, að ég tel. Við erum komin í miklu betra skjól og miklu betri stöðu. Við höfum ástæðu til að ætla að þetta hafi mjög jákvæð áhrif á marga þætti. Þetta styrkir stöðuna varðandi vaxtalækkanir í framhaldinu, gjaldeyrisstöðuleika og jafnvel frekari styrkingu krónunnar. Þetta hafi áhrif á lánshæfismatsstöðu landsins og vonandi líka jákvæð áhrif á trúverðugleika áætlunarinnar, að ganga að erlendum fjármálamörkuðum og fleira. Þetta á að geta haft margvísleg jákvæð áhrif.“
Steingrímur segir að árangurinn hafi ekki verið fyrirhafnalaus. „Það er búið að leggja gríðarlega vinnu í að tryggja að þetta gerðist. Alveg frá því upp úr áramótum,“ segir hann. Þetta bæti stöðu Íslands verulega. „Að sama skapi hefðu þær [horfurnar] dökknað ef við hefðum ekki náð þessu,“ segir fjármálaráðherra.
Þriðja endurskoðun mun að óbreyttu fara fram síðsumars.