Verð á raforku til almennings hefur lækkað um 19 prósent frá árinu 2002, þegar tekið er tillit til verðlagsþróunar. Raforkuverð á Íslandi er umtalsvert lægra en í helstu nágrannalöndunum, þar sem raforkuverð hefur hækkað á sama tímabili, en gengissveiflur gera slíkan samanburð alltaf erfiðan. Kom þetta meðal annars fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í dag.
Verð á raforku til stóriðju hefur hækkað umtalsvert undanfarið vegna tengingar raforkuverðs við álverð. Raforkuverð til stóriðju er hins vegar lægra en til almennings, jafnvel þegar horft er framhjá sköttum og dreifingarkostnaði.
Hærra verð til almennings
Þegar aðeins er borinn saman hlutur raforkuvinnslu í raforkuverði til almennings og stóriðju sést að heimilin borga um 3,5 krónur fyrir hverja kílóvattstund, en stóriðjufyrirtæki greiða hins vegar um 2,5 krónur, þegar skoðað er verðið í janúar og febrúar í ár. Hörður segir hins vegar að stíga verði afar varlega til jarðar í slíkum samanburði. Eins og áður segir er verð til stóriðju tengt álverði og er reiknað í bandaríkjadölum og getur því sveiflast í samanburði við verð til heimila.
Hins vegar er nýting stóriðju á raforku mun betri en almennra notenda. Nýting stóriðjunnar er um 96 prósent, en aðeins um 56 prósent hjá almennum notendum. Sveiflur í notkun almennings er með öðrum orðum mun meiri en hjá stóriðjunni. Til að geta þjónustað almenning þegar orkueftirspurn hans er sem mest þarf Landsvirkjun að leggja í framkvæmdir og fjárfestingar, sem ekki nýtast að fullu af þessum sökum.
Þá eru samningar við stóriðjufyrirtækin gjarnan gerðir til mjög langs tíma og er því eðlilegt að þau greiði lægra verð en aðrir fyrir raforkuna. Hann tók þó fram að hann teldi að bæði stórfyrirtæki og almenningur ættu að greiða hærra verð fyrir raforku en gert er nú.
Endurspegla markaðsaðstæður
Það verð sem stóriðja á Íslandi greiðir er lægra en meðalverð í heiminum, en Hörður varar við slíkum samanburði. Miða verði við verð í löndum og við aðstæður sem eru sambærilegar við Ísland. Gildandi orkusölusamningar endurspegla hins vegar markaðsaðstæður á þeim tíma sem samningarnir voru gerðir.
Hörður sagði jafnframt að sala á raforku til stóriðju hér á landi hafi staðið undir kostnaði Landsvirkjunar. Sjóðstreymi fyrirtækisins standi undir skuldsetningu þess og undanfarin ár hafi verið Landsvirkjun hagstæð.