Stór þorskur en lítið af ýsu

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Útbreiðsla þorsks var jafnari í vorralli Hafrannsóknarstofnunnar nú en verið hefur undanfarin ár. Stofnvísitala og stærðardreifing þorsks var svipuð og búist var við, nema að árgangurinn frá 2008 mældist minni en stofnmælingin í fyrra gaf til kynna.Tiltölulega mikið er nú af stórum þorski í stofninum.

Stofnvísitala ýsu lækkar um fjórðung

Stofnvísitala ýsu lækkaði um fjórðung frá mælingunni 2009 og er nú einungis rúmlega þriðjungur af meðaltali áranna 2003-2007 þegar hún var í hámarki.

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) fór fram í 26. sinn dagana 28. febrúar til 16. mars. Stofnmæling botnfiska er stöðluð mæling á hlutfallslegu magni botnfisks og nýliðunarhorfum, einkum hvað varðar þorsk. Fimm skip tóku þátt í verkefninu, samkvæmt tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun.

Mest fékkst af þorski djúpt út af Norðurlandi, en einnig fékkst talsvert í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land, í kantinum út af Vestfjörðum og á grunnslóð vestan lands. Stofnvísitala og stærðardreifing þorsks var svipuð og búist var við, nema að árgangurinn frá 2008 mældist minni en stofnmælingin í fyrra gaf til kynna.

Tiltölulega mikið er nú af stórum þorski í stofninum en lítið af millifiski eins og búast má við þegar nýliðun hefur verið léleg flest árin frá aldamótum en sókn lítil miðað við meðaltal áranna sem stofnmælingin hefur farið fram. Af árgangi 2009 mældist mun meira en í meðalári.

Aldrei áður jafn lítið af lúðu

Stofnvísitala skarkola var hærri en árin 1995-2009, en er samt einungis þriðjungur af því sem hún var í upphafi ralls. Vísitala þykkvalúru mældist há líkt og undanfarin sjö ár, en fer þó heldur lækkandi. Vísitala langlúru hefur farið lækkandi undanfarin ár og er nú í meðallagi. Vísitala sandkola mældist hærri en undanfarin ár en er samt í lægri kantinum. Vísitala lúðu í vorralli lækkaði hratt á árunum 1985-1990 og hefur verið í lágmarki síðan. Aldrei hefur fengist eins lítið af lúðu og í rallinu í ár.

Talsvert af skötusel fyrri sunnan og vestan land

Stofnvísitala ufsa hefur lækkað frá árinu 2006 og er nú lág eða svipuð og árin 1996-2001. Vísitala gullkarfa mældist há líkt og verið hefur frá árinu 2003. Vísitala steinbíts lækkaði um 16% og mælingin í ár er sú lægsta frá upphafi stofnmælingarinnar.

Lítið fékkst af 30-60 cm steinbít miðað við fyrri ár, sem bendir til að nýliðun í veiðistofninn verði léleg á komandi árum. Stofnvísitala löngu er há líkt og hún hefur verið undanfarin ár. Vísitala keilu hefur farið lækkandi síðustu tvö ár og minna fékkst nú af smákeilu (15-30 cm).

Talsvert fékkst af skötusel fyrir sunnan og vestan land eins og undanfarin sex ár og stöku fiskar fyrir Norðurlandi. Hinsvegar eru árgangar skötusels frá 2008 og 2009 lélegir ef miðað er við meðalárgang frá 1998.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert