Þriðja aukaflug Icelandair til Glasgow

Þriðja aukaflug Icelandair til Glasgow hefur verið ákveðið og verður brottför frá Keflavíkurflugvelli klukkan 17. Klukkan 14 fóru tvær flugvélar til Glasgow  með samtals rúmlega 400 farþega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

„Icelandair fékk í morgun heimild til flugs til Glasgow í Skotlandi og ljósi þess hversu margir farþegar eru staðsettir hér á landi sem strandaglópar vegna eldgossins var  ákveðið að bjóða upp á flug þangað við fyrsta tækifæri. Flugið í dag til Glasgow nýtist einkum þeim sem voru bókaðir á flug til Manchester/Glasgow og til London sem hafa verið felld niður, og kjósa að ferðast á leiðarenda innan Bretlands og/eða Evrópu á eigin vegum. Brottför frá Glasgow til Íslands í kvöld, verður kl. 22.00 að staðartíma.

Icelandair hvetur farþega til þess að fylgjast áfram með fréttum og komu- og brottfarartímum á flugvöllum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Flugtakmörkunum aflétt við norðurhluta Bretlandseyja

Þá segja bresk flugmálayfirvöld að takmarkanir á flugi yfir Englandi og Wales verði í gildi til klukkan 7 að breskum tíma í fyrramálið.

Klukkan sjö í kvöld að breskum tíma verður hins vegar flugtakmörkunum við Skotland, Orkneyjar, Hjaltlandseyjar og Norður-Írland aflétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert