Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að gagnrýni á hendur Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann flokksins, hafi gengið allt of langt að undanförnu. Þetta koma fram á flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í Stapa í Reykjanesbæ í dag.
Undanfarna daga, eða alveg frá því að rannsóknarnefnd Alþingis kynnti skýrslu sína sl. mánudag, hefur umræða innan Sjálfstæðisflokksins verið um það, hvort ekki sé rétt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins og þingmaður Suðvesturkjördæmis víki.
Málið varðar lán tengd Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni
Sjálfstæðisflokksins, nema nærri 1,7 milljörðum króna, eins og staða
þeirra var 30. september 2008. Eru öll veruleg lán tengd eiginmanni
Þorgerðar, Kristjáni Arasyni, sem þá var framkvæmdastjóri hjá
Kaupþingi.
„Ég verð að segja að þær árásir sem hún hefur þurft að mæta hafa gengið allt, allt of langt. Það á enginn að þurfa að sæta rofi á friðhelgi einkalífs og heimilis barna sinna. Það er ekki það samfélag sem við viljum sjá og sættum okkur við á Íslandi í dag,“ sagði Bjarni.
„Ég vil gefa öðrum þingmönnum, sem nefndir eru í skýrslunni, tækifæri til að svara fyrir sig. Það gerði Illugi Gunnarsson í gær þegar hann ákvað að taka sér leyfi þingstörfum á meðan mál sem honum tengjast eru í skoðun. Það var stórmannlegt af Illuga vin okkar,“ sagði Bjarni jafnframt.
Bjarni mun leggja til við miðstjórn flokksins, að næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði flýtt eins og kostur sé til þess að marka nýja stefnu í þjóðmálum á grundvelli þeirra hugmynda, sem fram komi hjá grasrótinni í flokknum á næstu mánuðum og í ljósi þeirra alvarlegu veikleika á þjóðfélagsgerð okkar, sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi leitt í ljós.
Bjarni ræddi jafnframt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að gera upp sinn hlut í kjölfar birtingu rannsóknarskýrslunnar.
„Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að okkur var svo mikið í mun að losa um öll höft í atvinnu- og viðskiptalífi Íslendinga að við gættum þess ekki, að frelsi verður að fylgja aðhald.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við trúðum um of á, að markaðurinn leysti sín vandamál sjálfur í stað þess að viðurkenna, að markaðurinn virkar ekki án eftirlits.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að flokkurinn, sem ætlaði að ryðja bákninu burt lét það viðgangast að báknið blés út ár eftir ár.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við einkavæddum án þess að við efldum eftirlitsstofnanir samfélagins nægilega mikið til þess að þær gætu fylgt einkavæðingunni eftir.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að flokkur okkar og forystumenn létu bankana og peningana taka völdin í landinu á þess að veita þeim það pólitíska aðhald, sem þeir þurftu að fá.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við hurfum frá stefnumörkun okkar um dreifða eignaraðild þegar við einkavæddum bankana.
Við verðum að horfast í augu við þann veruleika, að við hefðum aldrei átt að aðskilja seðlabankann og fjármálaeftirlitið með þeim hætti sem gert var,“ sagði Bjarni.