Flytja þarf hrossin í burtu

Þessir hestar voru út í Fljótsdal og fór ágætlega um …
Þessir hestar voru út í Fljótsdal og fór ágætlega um þá í dag enda fer askan sunnan við Eyjafjallajökul. mbl.is/Júlíus

„Þeim líður herfilega,“ segir Lars Hansen dýralæknir á Hvolsvelli þegar hann er spurður um líðan hrossa sem eru í gosmekki undir Eyjafjöllum. Hann hvetur þá sem eiga hross í hagagöngu undir Eyjafjöllum og í Landeyjum að koma þeim í burtu sem fyrst.

Lars átti fund með fulltrúa Búnaðarsambands Suðurlands og forðagæslumanni í dag þar sem búinn var til listi yfir bæi sem óskað hafa eftir aðstoð við að koma hrossum í skjól. Reynt verður að smala hrossum undir Eyjafjöllum í kvöld og á morgun ef birtir til. Ekkert verður hins vegar hægt að gera þar sem öskufallið er mest.

Lars sagði að næsta verkefni væri að huga að búpeningi í Landeyjum en þar er spáð öskufalli eftir 2-3 daga. Gríðarlega mörg hross eru í Landeyjum og ekki húsaskjól fyrir þau öll. Lars sagði ekki einfalt mál að koma stórum stóðum í hús sem kannski hefðu aldrei í hús komið.

Lars beindi þeim eindregnu tilmælum til þeirra sem eru með hross í hagagöngu undir Eyjafjöllum og í Landaeyjum að sækja þau sem fyrst og koma þeim af svæðinu. Bændur á þessu svæði þurfa að nota húsin undir sín hross.

Lars sagði greinilegt að hrossum sem væru í öskufalli liði mjög illa. Hann sagði að hrossunum væri hætta búin og ekki væri hægt að útiloka að þau dræpust ef gosið héldi áfram og ekki væri hægt að koma þeim af svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert