Gígarnir í Eyjafjallajökli hafa stækkað mikið og er hugsanlegt að við það hafi hægt á bráðnun í jöklinum. Aukinn kraftur hefur færst í gosið síðdegis eftir að það datt niður um tíma.
Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í morgun og aftur um miðjan daginn. Þeir segja að gígopin hafi stækkað. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, segir hugsanlegt að við það hægi á bráðnuninni. Hann segir þó að menn þurfi að skoða þetta betur áður en hægt sé að slá neinu föstu. Víðir segir að ef þetta sé rétt sé líklegt að komið sé sírennsli niður í Markarfljót.
Hugsanleg skýrir þetta að ekkert nýtt hlaup hefur komið í Markarfljót síðan í gærkvöldi.
Mjög gott útsýni hefur verið til gosstöðvanna í dag. Himininn er heiðskýr og gosmökkurinn sést því vel víða að. Krafturinn í gosinu datt niður í stutta stund um miðjan dag, en kom svo upp aftur af miklum krafti.
Eldingar hafa sést í dag. Víðir sagði aðspurður að ekkert hefði sést til elds í fjallinu. Það væri einungis aska sem næði að rífa sig upp úr gígunum.