Mikið hefur verið um eldingar yfir Eyjafjallajökli í kvöld. Mikill kraftur hefur verið í gosinu og mikið öskufall undir Eyjafjöllum.
Samhæfingarstöð almannavarna sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að Íslendingar séu oft ekki á varðbergi gagnvart hættunni sem af eldingum stafar. Eldingahætta frá gjósandi eldstöð sé mest í gosmekkinum sjálfum og geti náð í allt að 30-40 km undan vindi frá eldstöðinni.
Vegna eldinganna sem fylgja eldgosum er ástæða til að setja eldingavara á hús til að minnka líkur á að eldingum slái niður í þau. Best er að leita til rafvirkja vegna uppsetningar á eldingavara og rafveitur vegna rafskauta.