„Mér finnst ég hafa brugðist“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir við upphaf flokksstjórnarfundarins í …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir við upphaf flokksstjórnarfundarins í Garðabæ. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist.“ Þetta sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingar, þegar hún ávarpaði flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún óskaði eftir að fá að ávarpa fundinn, en ræða hennar var ekki á upphaflegri dagskrá fundarins. 

„Rannsóknarnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki gerst sek um mistök eða vanrækslu í starfi. Það er ekki léttbært að vera ásakaður um að hafa brugðist starfsskyldum sínum og eins og allir hljóta að skilja var mér því óendanlega létt við þessa niðurstöðu.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Þar með er ekki sagt að ég beri enga ábyrgð.

Ég ber ekki ábyrgð á störfum annarra en ég ber ábyrgð á sjálfri mér og gagnvart sjálfri mér. Ég ber ábyrgð á flokknum og gagnvart flokknum. Og ég ber ábyrgð gagnvart kjósendum flokksins.

Þegar ég nú horfi yfir tímabilið 2007-2009 þá geri ég það ekki af neinu stolti. Þvert á móti tel ég að margt hafi misfarist í stefnu og starfi Samfylkingarinnar sem ég ætla þó ekki að ræða hér í dag en eftirláta ykkur þá greiningu.

Ég kem hér upp bara til að segja ykkur að þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist.

Ég brást sjálfri mér vegna þess að ég hélt ekki fast við þær grundvallarhugmyndir um nauðsynlegar breytingar á íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu sem ég lýsti m.a. í Borgarnesræðunni í febrúar 2003.

Ég brást ykkur flokksmönnum af sömu ástæðu. Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var þess ekki umkomið að taka á fjármálakerfi, sem við vissum að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum.

Stjórnarsamstarfið hafði heldur ekki burði til að taka á vanhæfu stjórnkerfi þar sem aðskilnaðurinn milli stjórnmála og stjórnsýslu var löngu horfinn.Við slíkar aðstæður er voðinn vís. Þetta átti ég, með mína reynslu úr borginni, að vita.

Ég brást kjósendum flokksins sem trúðu því að með því að kjósa okkur í Samfylkingunni yrði einmitt tekið á þessum málum.

Eins og allir á ég mér auðvitað málsbætur en ég ætla ekki að færa þær fram hér. Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur hefur sinn tíma eins og segir í Prédikaranum. Nú er tími yfirbótar en ekki útskýringa. Mitt pólitíska uppgjör við atburði undangenginna missera og ára bíður betri tíma.

Með því að segja þetta hér er ég ekki að reyna að verða mér úti um allsherjar aflátsbréf.

Ég segi þetta vegna þess að mér hefur oft orðið hugsað til þess á undanförnum mánuðum til hvers ég hafi starfað, talað og hugsað um stjórnmál í nærri 30 ár? Varð það allt að engu í hruninu? Hvarf mitt pólitíska framlag eins og hendi væri veifað rétt eins og hlutabréfin í bönkunum?

Og skipti þetta framlag yfirleitt einhverju máli? Breytti starfið einhverju til hins betra, var eitthvað það hugsað og sagt og gert sem gat verið öðrum hvatning til sköpunar og framfara?

Já, í einlægni sagt þá held ég það. Mér finnst ég ekki hafa til einskis starfað í stjórnmálum þó auðvitað verði mitt streð eins og annarra lagt í dóm sögunnar þegar fram líða stundir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka