„Það er gríðarlegt öskufall. Það er þó minna en í gærkvöldi, en samt mikið,“ sagði Pétur Freyr Pétursson, bóndi á Núpakoti undir Eyjafjöllum, en hann ók í nótt í gegnum mökkinn. Hann þurfti að stoppa á leiðinni því útsýnið var ekkert.
Pétur var að sinna skepnum til kl. 2 í nótt. Hann hélt þá að bænum Hlíð þar sem hann gist í nótt. „Ég varð stoppa á leiðinni. Útsýnið var ekkert. Það var hægt að sjá í veglínuna öðru megin. Þetta var svo dimmt að það má segja að maður hafi ekki séð fram fyrir hendurnar á sér.“
Pétur er með um 45 hross og nokkrar kindur. Meirihluti hrossanna hefur verið gefið úti, en eftir að gosið hófst í Fimmvörðuhálsi hófst hann handa við að útbúa aðstöðu í gömlum útihúsum fyrir hrossin. Hann hefur verið að setja upp stíur og jötur. Búa þurfti til aðstöðu fyrir um 30 hross sem hafa verið úti. Það var talsvert mál, m.a. vegna þess að ekki er langt síðan að tjón varð á húsum í Núpakoti vegna veðurs.
„Við vorum að berjast við það í gær að koma hrossunum inn. Það rétt slapp að koma þeim inn áður en þetta byrjaði.“
Pétur sagði vont að þurfa að taka fylfullu merarnar inn í hús. Við venjulegar aðstæður færi mun betur um þær úti.
Pétur gisti á bænum Hlíð í nótt. Hann sagði að reynt væri að dreifa fólki sem þyrfti að yfirgefa heimili sín á bæina. Varmahlíð, þar sem margir gista, er bara íbúðarhús og takmarkað pláss þar. Pétur sagðist helst ekki vilja fara í Drangshlíð, þar sem er nóg pláss. „Ef það kemur hlaup í ána verður ófært heim til okkar og við komust ekki til að sinna skepnunum.“
Ekki er sjálfvirk brynning í þeirri aðstöðu sem Pétur var að koma sér upp fyrir hrossin sem sett voru inn í gærkvöldi. Sinna þarf þeim á hverjum degi og tryggja að þau hafi nægt vatn og hey.