„Þetta er viðbjóður“

Gosmökkurinn yfir Þorvaldseyri í gærkvöldi.
Gosmökkurinn yfir Þorvaldseyri í gærkvöldi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er viðbjóður. Það er hreint ótrúlegt að upplifa þetta. Þetta er miklu verra en ég reiknaði með,“ sagði Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, sem í gær horfði á öskumökkinn gleypa bæinn sinn.

„Við opnuðum hurðina í gærkvöldi, rétt augnablik og þá kom fýll inn til okkar. Hann hafði flogið í átt að ljósinu,“ sagði Páll Eggert. Hann sagði að annar fýll hefði verið á vappi fyrir utan bæinn. Hann sagðist hafa heyrt frá fleiri bæjum undir Eyjafjöllum að fýlar væru á hlaðinu. Það gæti varla verið annað en fuglar í talsverðum mæli væru að drepast í þessum ósköpum.

„Ég er bara í sjokki,“ sagði Páll Eggert þegar hann var spurður hvernig væri að upplifa þetta. „Mann langar bara að sofa áfram og ekki þurfa að horfa á þetta,“ sagði Páll Eggert við mbl.is í morgun, skömmu áður en hann lagði af stað frá Varmahlíð, þar sem hann svaf í nótt, að Þorvaldseyri til að mjólka kýrnar.

Þessi mynd var tekin í Varmahlíð fyrir skömmu þar sem …
Þessi mynd var tekin í Varmahlíð fyrir skömmu þar sem fólk gisti vegna gossins. Á myndinni eru Pétur Freyr Pétursson og Helga Haraldsdóttir frá Núpakoti og Guðný Valberg, Hanna Lára Andrews, Ólafur Pálsson og Páll Eggert Ólafsson frá Þorvaldseyri. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert