Þorgerður stígur til hliðar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í Stapanum í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í Stapanum í dag. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur ákveðið að segja af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og taka sér leyfi frá þingstörfum. „Ég finn að trúverðugleiki minn sem stjórnmálamaður hefur skaðast og ykkar vegna, flokksins míns vegna þá tek ég þessa ákvörðun,“ segir Þorgerður Katrín.

„Ég hef eftir mikla umhugsun komist að þeirri niðurstöðu að það sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eins og sakir standa, að ég láti af embætti varaformanns og ég fari í tímabundið leyfi sem þingmaður, m.a. með tilliti til þeirrar þingnefndar sem er að fjalla um rannsóknarskýrsluna,“ sagði Þorgerður Katrín á flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í Stapa í Reykjanesbæ í dag.

„Það er sárt að kveðja varaformannsembættið, en ég get ekki horft fram hjá minni ábyrgð, minni samvisku og mínum trúverðugleika. Ég vil ekki að persóna mín í embætti varaformanns skyggi á það endurreisnarstarf sem vinna þarf innan flokksins, eða þær gríðarlegu mikilvægu kosningar sem framundan eru núna á vormánuðum,“ segir Þorgerður Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert