Lögreglan á Selfossi hafði hendur í hári ökumanns sem er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna á ofsahraða. Maðurinn reyndi að stinga lögregluna af og mældist hann aka á 136 km hraða á svæði þar sem hámarkshraðinn er 30 km á klukkustund.
Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, hefur áður komið við sögu lögreglu. Lögreglumenn veittu honum eftirför á Eyrarbakkavegi við Litla-Hraun um klukkan 15 í dag. Þeir könnuðust við hann þar sem hann var próflaus.
Á Eyrarbakka yfirgaf maðurinn bifreiðina og reyndi að fela sig á bak við ruslatunnu við hliðina á samkomuhúsi, en án árangurs.
Manninum var sleppt að lokinni skýrslutöku.