Icelandair hefur bætt við fimmtu ferðinni til Þrándheims í Noregi. Félagið tilkynnti í morgun um tvær ferðir til Noregs og fylltust þær strax. Gríðarlegt álag hefur verið hjá félaginu og mikið um endurbókanir.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að um 800 manns fari með vélunum til Þrándheims, en það er eini staðurinn sem félagið flýgur til í dag í Evrópu. Hann segir að farþegar fari með lestum, rútum eða á annan hátt áfram á áfangastað.
Fjórar af þessum fimm flugvélum koma til baka í dag, en ein verður eftir í Þrándheimi. Fólk sem bíður eftir flugi í Kaupmannahöfn getur ef það vill reynt að koma sér til Noregs til að taka vélina á morgun, að sögn Guðjóns.
Guðjón segir að mikið sé um endurbókanir. Fólk sé að færa til ferðir. Hann segir að í morgun og fram á hádegi hafi verið afgreidd um þúsund símtöl hjá Icelandair. Mikið álag hefur verið á símkerfið.
Guðjón hefur ekki upplýsingar um hversu margir viðskiptavinir Icelandair eru strandaglópar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Erfitt sé að fá heildarmynd yfir stöðuna því að sumir hafi ákveðið að fresta ferðum, en aðrir bíði í óþreyju eftir að komast af stað.