„Það er ótrúlegt að upplifa þetta. Hér var eins og miðdimm nótt í allan gærdag,“ sagði Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður í Vík, en hún býr í Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Hún segir að fólki sé mjög brugðið og margir hafi farið burt af svæðinu til ættingja og vina.
Minna öskufall er undir Eyjafjöllum núna. Það snjóaði aðeins í nótt sem veldur því að askan fýkur ekki eins mikið um og í gær. Anna Birna segir að það sé 1-2 cm öskulag yfir öllu. „Það gleður mann þó að sjá enn í græn grös standa upp úr öskunni.“
Anna Birna segir að þeir sem ekki þurfi að sinna skepnum séu margir hverjir farnir af svæðinu til ættingja og vina á Hvolsvelli eða í Reykjavík. Bændur verði hins vegar að sinna skepnunum. „Fólki er mjög brugðið. Maður skilur það vel því hér býr fólk sem á allt sitt undir gæðum landsins,“ segir Anna Birna.
Ekki hefur farið hjá því að aska hefur borist inn í sum íbúðarhús þrátt fyrir að fólk hafi reynt að þétta glugga. Fólk hefur líka verið hvatt til að kynda hús sín en það stuðlar að því að minna berst inn. Anna Birna segist hafa hækkað á ofnunum áður en öskufallið hófst og það hafi skilað árangri. Hins vegar hafi verið orðið svo heitt inni að hún hafi lækkað á ofnum og þá hafi aðeins borið á ösku inni.
Veðurstofan hefur gefið út nýja spá um öskufall.
Sunnudagur: Vestanátt beinir gosmekki yfir Mýrdalsjökul. Búast má við öskufalli í Skaftártungum og Meðallandi og jafnvel austur að Kirkjubæjarklaustri. Einnig má búast við öskufalli í Mýrdal og á Mýrdalssandi. Fremur lágskýjað á Eyjafjallajökli og því takmarkað eða lítið skyggni.
Mánudagur: Ákveðin norðanátt ber gosmökk til suðurs frá Eyjafjallajökli. Öskufall því líklega einkum suður af gosstöðinni, en einnig má búast við einhverju öskufalli yfir A-Landeyjar og jafnvel í Vestmannaeyjum. Líklega léttskýjað lengst af og gott skyggni.
Þriðjudagur: Hæg breytileg átt á láglendi, en hvöss norðvestanátt í hærri loftlögum. Búast má við að gosaska berst því ekki langt frá gosstöðinni og þá einkum til suðausturs í átt að Vík í Mýrdal, en gæti þó dreifst talsvert umhverfis gosstöðina. Bjartviðri að mestu og ágætt skyggni, en lágskýjað og úrkoma um kvöldið.
Miðvikudagur: Norðan og norðaustanátt og áfram fremur bjart veður. Reikna má með að öskufall verði einkum bundið við svæðið undir Eyjafjallajökli sunnanverðum. Einnig má búast við einhverju öskufalli í Austur-Landeyjum og Vestmannaeyjum.
Fimmtudagur: Líklega norðlæg átt, bjartviðri og gosmökkur til suðurs.