Íslenski jarðeðlisfræðingurinn Freysteinn Sigmundsson er á meðal strandaglópa í París, sem bíða eftir því að flugsamgöngur hefjist á ný. Franska fréttastofan AFP tók hann tali og viðurkennir Freysteinn að það sé erfitt fyrir jarðeðlisfræðing að þurfa að fylgjast með eldgosinu í Eyjafjallajökli, sem hann þekkir mjög vel, úr fjarska.
Freysteinn, sem var staddur á jarðvísindaráðstefnu í París þegar gosið hófst sl. miðvikudag, segir að enginn hafi getað séð fyrir þá flugröskun sem hafi orðið vegna gossins.
Hann segist verða svekktur þurfi hann að bíða mikið lengur eftir flugi heim.Á meðan fylgist hann með jarðhræringum í jöklinum í gegnum tölvu.
Hann spáir því að það muni halda áfram á gjósa í Eyjafjallajökli næstu vikur eða jafnvel mánuði. Það sem menn óttist hins vegar einna helst sé hvort það muni mögulega fara að gjósa á öðrum stað, t.a.m. í Kötlu.