Kvikan sem nú gýs er náskyld þeirri sem myndaði Skerin kringum árið 920, og fellur á sömu stefnu. Það bendir til að nýja kvikan kunni að koma úr sömu kvikuþró og var virk árið 920 eða alla vega af sama uppruna. Þetta segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur.
Haraldur fjallar um eldgosið í Eyjafjallajökli á heimasíðu sinni. Hann segir að Skerin séu merkileg jarðmyndun. Árið 2009 varði jarðfræðingurinn Birgir Vilhelm Óskarsson MSc ritgerð við Háskóla Íslands um goshrygginn Skerin í vestur hluta Eyjafjallajökuls.
Haraldur segir að það sé fróðlegt að bera saman efnagreiningar Birgis á gosefnum sem komu upp í Skerjum kringum árið 920 og efnagreiningum Níels Óskarsonar á öskunni sem nú gýs upp úr toppgíg Eyjafjallajökuls. Niðurstaðan er sú að kvikan sem nú gýs er náskyld þeirri sem myndaði Skerin í kringum árið 920.
Haraldur lenti í gær á þyrlu á Skerjum í Eyjafjallajökli, skammt fyrir vestan hinn gjósandi toppgíg eldkeilunnar. „Það var stórfenglegt að sjá gosmökkinn brjótast upp úr gígnum í návígi,“ segir Haraldur.
„Annars er jökullinn alveg tandur hreinn hér vestan gígsins, en aðeins austar byrjar brún rönd öskufallsins rétt við gígbrúnina. Aska hefur ekki enn borist til vesturs. Fyrir utan öskudreifina eru samt nokkrar djúpar holur í ísinn. Þar hafa „bombur“ eða stórir og glóandi heitir steinar kastast út úr gígnum og lent á jökulinn. Hér bræða þeir sig strax niður í ísinn og mynda holur.“