Samfylkingin skipar umbótanefnd

Jóhanna Sigurðardóttir á flokksráðsfundinum í Garðabæ.
Jóhanna Sigurðardóttir á flokksráðsfundinum í Garðabæ. Golli

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær var samþykkt skipan umbótarnefndar sem hefur það verkefni að leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins og gera að því loknu tillögur til umbóta. Þær skulu liggja fyrir ekki síðar en á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í haust.


Umbótanefndin verður skipuð sextán einstaklingum. Jón Ólafsson heimspekingur, Ásgeir Beinteinsson skólastjóri, Hólmfríður Sveinsdóttir stjórnsýslufræðingur og Kolbrún Benediktsdóttir lögfræðingur fara með verkstjórn verkefnisins og auk þess verða tveir úr hópi áhugasams flokksfólks tilnefndir í nefndina úr hverju kjördæmi. Fulltrúar kjördæma skulu kjörnir á kjördæmisþingum eða með öðrum lýðræðislegum hætti samkvæmt ákvörðun kjördæmisráða og skulu þær liggja fyrir ekki síðar en 30. apríl nk.

Viðfangsefni umbótanefndar Samfylkingarinnar er að rýna í helstu niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og meta á orðum og verkum Samfylkingarinnar í ljósi niðurstaðna hennar.
Einnig á nefndin að rýna í stefnu Samfylkingarinnar á þeim lykilsviðum sem dregin eru fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem orsakavaldar eða rætur hruns fjármálakerfisins.

Þá á nefndin að skoða starfshætti Samfylkingarinnar, ábyrgð og aðkomu stofnana flokksins að lykilákvörðunum og lykilmálum i ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndarinnar.


„Meðal þess sem komi til skoðunar í vinnu hópsins verði:
Aðkoma flokksfólks að ferli stefnumótunar og stöðumati og hvernig slíkt var nýtt í starfi Samfylkingarinnar.
Hvaða ráðgjöf eða sérfræðiaðstoð við stöðumat og stefnumótun stóð Samfylkingunni til boða og hvernig slíkt var nýtt.
Hvernig stöðumat, greiningar og ábendingar málefnanefnda og sérfræðihópa á vegum Samfylkingarinnar eða skýrslur utanaðkomandi sérfræðinga um tiltekin málefni voru nýtt í starfi flokksins.
Hvernig skipulag og starfshættir Samfylkingarinnar og forystu flokksins hafi reynst í ljósi ríkisstjórnarþátttöku flokksins 2007 – 2009.
Rýna í aðferðir flokksins við val á framboðslista.
Setja fram tillögur að reglum um við hvaða fjármunum frambjóðendur mega taka, sem eru í framboði/prófkjöri.
Að skoða og rýna í starfshætti og samskipti þingmannahóps Samfylkingarinnar frá 2007,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert