Björgunarsveitarmenn fóru í morgun að bænum Seljavöllum undir Eyjafjöllum og aðstoðuðu við að sópa ösku af þökum húsa.
Sveiflur voru í gosóróanum í nótt. Hann óx fram til kl. 02 en hjaðnaði þá. Síðan fór órói ört vaxandi á ný uppúr kl. 06 og náði hámarki upp úr kl. 8. Síðan fór hann aftur minnkandi. Gosmökkur hefur ekki sést á ratsjá eftir kl. 8. Það þýðir að hann nær ekki 3 km hæð.
Búið er að setja vatnshæðarmæli í Markarfljót við Þórólfsfell. Mælirinn sendir sjálfvirkt upplýsingar um breytingar á vatnshæð í fljótinu. Engin stór flóð hafa komið í Markarfljót í meira en sólarhring. Það bendir til þess að dregið hafi úr bráðnun í gosöskjunni og að sírennsli sé niður af jöklinum.