Þrír nýir þingmenn munu taka sæti á Alþingi eftir helgina eftir að þrír þingmenn hafa dregið sig tímabundið í hlé frá þingstörfum eftir birtingu rannsóknarskýrslu Alþingis.
Þingmennirnir Björgvin G. Sigurðsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Illugi Gunnarsson hafa öll tilkynnt á síðustu dögum að þau ætli að draga sig í hlé tímabundið á meðan Alþingi fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis.
Fyrsti varamaður Björgvins er Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel. Fyrsti varamaður Þorgerðar Katrínar er Óli Björn Kárason, fyrrverandi ritstjóri. Fyrsti varamaður Illuga er Sigurður Kári Kristjánsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.