Fyrirhugað er að dæla úr tjörnum við heimili Hrafns Gunnlaugssonar í Laugarnesi í Reykjavík í dag. Hrafn er með fiska í tjörnunum, en hann segir ljóst að þeir drepist við þessar aðgerðir. Það er Reykjavíkurborg sem stendur fyrir aðgerðunum. Dæling er að hefjast.
Hrafn fékk í dag frest fram á föstudag til að fjarlægja listaverk sem eru á svæðinu. Hrafn segir að borgin hafi hins vegar í dag fengið verktaka til að dæla vatn úr þremur litlum tjörnum sem þarna eru. Við það drepist fiskurinn í tjörnunum.
Hrafn segir að gæs sé farin að verpa í Laugarnesi, en varpinu sé ógnað með þeim látum sem nú séu að fara af stað. „Ég átta mig ekki forgangsröðina hjá borginni og skil ekki hvers vegna þetta fær ekki að vera í friði. Þetta er ekki fyrir neinum og truflar ekki neinn,“ sagði Hrafn og bætti við að borgarstjóri hlyti að láta þetta mál til sín taka. Það þýddi ekkert fyrir borgarstjóra að vísa á embættismenn.
Framkvæmdasvið borgarinnar sendi frá sér fréttatilkynningu í dag um þetta mál.
Forsögu málins má rekja til samnings sem gerður var við Hrafn og hann undirritaði 9. apríl 2003 segir: „Hrafni er ljóst að honum er óheimilt að breyta jarðvegi utan lóðarmarka og það sé á valdi borgaryfirvalda að fjarlægja þær framkvæmdir sem hann hefur staðið fyrir utan lóðarinnar."
Fyrir tæpu ári síðan lét Framkvæmda- og eignasvið að gefnu tilefni kanna ástand borgarlands umhverfis Laugarnestanga 65. Í bréfi dagsettu 1. júli 2009 segir að í ljós hafi komið að verulegar framkvæmdir og jarðrask hafi átt sér stað eftir undirritun samkomulagsins frá 2003.
Í bréfinu er Hrafni gefinn kostur á að standa sjálfur fyrir lagfæringum á þeim spjöllum sem unnin voru á borgarlandinu. Vegna staðhæfinga Hrafns í fjölmiðlum um að honum hafi aldrei borist þetta bréf er rétt að geta þess að bréfið var afhent af stefnuvotti á heimili Hrafns daginn eftir undirritun þess.
Síðastliðinn föstudag (16. apríl) var Hrafni sent bréf þar sem enn er áréttað að við óbreytt ástand yrði ekki lengur unað og að lagfæringar hæfust í dag, mánudaginn 19. apríl. Þessum fyrirætlunum hefur Hrafn mótmælt. Þeim andmælum hefur verið svarað og hefur Hrafni verið veittur lokafrestur til að fjarlægja muni utan lóðarmarka til kl. 9:00 föstudagsins 23. apríl nk. Hreinsun á svæðinu fer að öðru leyti fram samkvæmt áætlun. Jafnframt er Hrafni boðið að koma til fundar á skrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs, þar sem honum yrði gerð nánari grein fyrir framkvæmdum við hreinsun borgarlandsins í Laugarnesi. “