Fullur gámur af gjöfum

Varðskipið Ægir mun flytja fullan gám af gjöfum til fátækra …
Varðskipið Ægir mun flytja fullan gám af gjöfum til fátækra barna í Senegal. Landhelgisgæslan

Hjálparbeiðini ABC barnahjálpar vegna ABC skólans í Dakar í Senegal vakti gríðarmikil viðbrögð, að sögn Margrétar Blöndal skrifstofustjóra ABC barnahjálpar. Hjálpargögn af ýmsu tagi verða flutt með varðskipinu Ægi sem fer til eftirlitsstarfa við Afríkustrendur.

Margrét sagði að viðbrögðin hafi verið „ótrúlega mikil“. Ekki er ljóst hvort gámurinn sem fluttur verður með varðskipinu nær að rúma allt sem hefur safnast. Margrét sagði að allar gjafirnar verði sendar til barna sem eru skjólstæðingar ABC barnahjálpar, jafnt þótt þær komist ekki í gáminn nú.

„Við erum að fara í gegnum það sem barst. Það er mikið af fötum, leikföngum, skólavörum og öðru,“ sagði Margrét. Vörurnar verða settar í gáminn á morgun. Hún sagði að mörg fyrirtæki hafi brugðist vel við áskoruninni. Meðal annarra hafa skilanefndir sýnt örlæti sitt.

Einstaklingar hafa aðallega gefið fatnað, leikföng á borð við bolta og fleira. Fyrirtæki hafa m.a. gefið pappír, ritföng og skólatöskur. Þá hefur mikið borist af merktum bolum.

„Það er svakalega flott hvað fólk tók vel í þetta með svona skömmum fyrirvara. Við verðum ekki í neinum vandræðum með að fylla gáminn,“ sagði Margrét.

Landhelgisgæslan og ABC barnahjálp sendu frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu:

„Síðustu vikur og mánuði hefur Landhelgisgæslan unnið að því að taka þátt í eftirliti með Frontex, Landamærastofnun Evrópu sem Ísland er aðili að í gegnum Schengen samstarfið.

Í undirbúningnum kom fram sú hugmynd hvort hægt væri að styrkja hjálparsamtök í Senegal með því að flytja til þeirra vörur með varðskipinu.  Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að ABC rekur barnaskóla í höfuðborg Senegal, Dakar.  Skólinn er fyrir 149 fátæk börn á aldrinum 3ja til 7 ára en einnig er rekið athvarf fyrir götudrengi.   Á hverjum degi koma 30-50 börn í  athvarfið þar sem þau fá mat, fara í sturtu, þvo fötin sín, leika sér og síðast en ekki síst fá þau kennslu.  Enn fremur er rekinn fótboltaskóli einu sinni í viku fyrir stráka á aldrinum 10 – 16 ára.   

Á vegum ABC Barnahjálpar hefur staðið yfir söfnun meðal stuðningsmanna og hefur einkum verið óskað eftir pappír, stílabókum, litum, blýöntum, pennum, ýmis konar borðspilum, leikföngum og íþróttavörum fyrir börnin. Einnig vantar hillur, skólaborð og stóla fyrir börnin.

Auk þess að leita til stuðningsmanna hefur ABC Barnahjálp og Landhelgisgæslan vakið athygli nokkurra fyrirtækja á söfnuninni og fengið mjög góðar undirtektir.“

Heimasíða ABC barnahjálpar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka