Geri tillögur um breytingar á skattkerfinu

mbl.is/Þorkell

Fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp til að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu. Starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra eigi síðar en 15. júlí nk. með helstu stefnumarkandi tillögum og tillögum um þær lagabreytingar sem hægt verði að leggja fram til afgreiðslu á haustþingi 2010.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Skulu þær tillögur vera í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og áætlanir um fjárlög fyrir árið 2011. Lokaskýrslu og heildartillögum skal skilað fyrir árslok 2010.

Vinna hópsins er í beinu framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru á skattalöggjöfinni í tengslum við fjárlög ársins 2010 á síðasta ári. Þær voru miðaðar við að bæta afkomu ríkissjóðs í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, en um leið að dreifa skattbyrði með sanngjörnum hætti og hlífa tekjulágum við skattahækkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert